
- Bryndís Svavarsdóttir
- Sóknarprestur

Brjánslækjarkirkja er friðuð timburkirkja, sem byggð var árið 1908. Höfundur kirkjunnar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.
Kirkjan er einlyft með forkirkju og turni beint upp af henni og stendur á steyptum grunni. Þakið er krossreist og á turni er tvískipt píramídalaga þak, sem klætt er sléttu járni. Kirkjan tekur 50 manns í sæti. Veggir kirkjunnar eru klæddir hvítmáluðu bárujárni. Á hvorri hlið eru þrír sex rúðna gluggar.
Altaristaflan er olíumálverk frá árinu 1912 eftir Þórarin B. Þorláksson listmálara og sýnir Krist sem góða hirðinn í íslensku landslagi. Á framstafni norðan kirkjudyra er gömul altaristafla, sem sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Hún mun vera dönsk frá 18. öld. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem er dönsk smíð frá árinu 1804. Þá á kirkjan þjónustukaleik og patínu úr silfurhúðuðum málmi, sem eru nýlegir gripir.
Skírnarfonturinn er með glerskál. Hann er sexstrendur efst úr rauleitum harðviði. Fontinn smíðaði og skar Sveinn Ólafsson frá Lambavatni á Rauðasandi, myndskeri í Reykjavík. Klukkur Brjánslækjarkirkju eru þrjár, ein lítil bjalla, sem er kórbjalla úr kaþólskum sið, önnur gömul klukka og hin þriðja kom í kirkjuna árið 1913 sem gömul skipsklukka.
Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden.
