Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Rönd, 660 Mývatni
Fjöldi: 12

Bænhúsið á Rönd

Bænhúsið á Rönd er í einkaeign. Hugmynd að byggingu lítillar torfkapellu kviknaði hjá hjónunum Guðmundi Gíslasyni og Ernu Adolphsdóttur kringum árið 1978. Hörður Ágústsson listmálari tók saman skýrslu um kapellur og kirkjur sem staðið höfðu í Reykjahlíð fyrr á öldum, og gerði frumteikningu að kapellu þeirri, sem var reist. Grunnurinn var reistur sumarið 1984 og sá Salómon Erlendsson húsasmíðameistari og synir hans um það verk. Viðurinn í kapelluna var síðan valinn úr skógum Noregs af þeim hjónum Ernu og Guðmundi.

Árið 1985 var kapellan síðan tilhöggin og sett saman í Reykjavík og önnuðust Gunnar Bjarnason og Hildur M. Sigurðardóttir verkið. Yfirhleðslumaður við frágang kapellunnar í Mývatnssveit var Stefán Stefánsson, Brennigerði í Skagafirði. Var frágangi kapellunnar lokið árið 1985. Útskorna dyrastafi gerði Sveinn Ólafsson tréskurðameistari. Hvoru tveggja kór og framkirkja eru eitt stafgólf með syllum, bitum, sperrum, langböndum, veggþiljum og reisifjöl. Í bjórþili kórs er tólfrúðu glergluggi, en í bjór framkirkju er vindauga. Dyr eru fyrir kapellunni með úthöggnum dyrastöfum, járnum og hurðarhring. Að aftan og framan eru útsniðnar vindskeiðar. Kapellan á silfurkaleik og patínu, smíðuð af Björgvini Svavarssyni silfursmið. Skírnarfontur er í kapellunni.

Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Sólveig Halla Kristjánsdóttir
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Þorgrímur G. Daníelsson
  • Sóknarprestur