Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Hjarðarholtsvegi, 311 Borgarnesi
Kirkjugarður
Bílastæði
Fjöldi: 40

Hjarðarholtskirkja í Borgarfirði

Hjarðarholtskirkja í Borgarfirði er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1895. Hönnuður hennar var Árni Þorsteinsson forsmiður, bóndi og fræðimaður frá Brennistöðum í Flókadal.

Í öndverðu var þak kirkju og suðurhlið klædd bárujárni, en aðrar hliðar klæddar timbri. Þær voru klæddar bárujárni í áföngum á árunum fram til um 1915.

Á árunum 1994–1995 var kirkjan færð til upprunalegs horfs að utan, og að innan árin 2003–2004.

Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki og undir honum bjúgstallur. Á framhlið turns er hljómop með vængjahlerum fyrir og bogagluggi yfir. Þök eru klædd bárujárni, turn sléttu járni, en veggir láréttum plægðum borðum og kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Undir þakbrúnum eru laufskornar vindskeiðar. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn heldur minni á framstafni yfir kirkjudyrum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Altaristaflan er máluð á tvo tréfleka sem fella má saman, að neðan er síðasta kvöldmáltíðin, að ofan uppstigningin. Hún er líklega danskt verk frá 18. öld.

Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri. Fóturinn er kringlóttur og á hann eru grafnar fjórar myndir. Hann er vart yngri en frá 16. öld.

Klukkur Hjarðarholtskirkju eru tvær. Sú stærri mun vera frá síðmiðöldum, hin er mun yngri og talin vera gömul skipsklukka.

Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Anna Eiríksdóttir
  • Prestur