
- Gunnar Jóhannsson
- Prestur

Eyrarbakkakirkja er friðlýst bárujárnsklædd timburkirkja sem byggð var á árunum 1889 til 1890. Hönnuður hennar var Jóhann Fr. Jónsson forsmiður á Eyrarbakka og kirkjusmiðurinn var Páll Jónsson smiður á Gamla-Hrauni. Kirkjan var vígð af biskupi Íslands, herra Hallgrími Sveinssyni, 14. desember 1890.
Upphaflega var kirkjan klædd láréttum plægðum borðum en fyrir aldamótin 1900 var búið að klæða veggi hennar með bárujárni. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni hennar er áttstrendur turn með spíru. Hann stendur á ferstrendum stalli sem gengur sem nemur veggjarþykkt fram úr stafninum. Upp af turnspírunni er ljóskross sem settur var upp á sjöunda áratug síðustu aldar í stað vindhana frá árinu 1918. Öll þök kirkjunnar eru klædd með bárujárni. Kirkjan er með háum veggjum, tvílofta sem kallað er, og með gluggum inn á setsvalir sem gefur henni séstöðu. Eyrarbakkakirkja er elsta varðveitta timburkirkja landsins þessarar gerðar.
Á árunum 2015 til 2020 var unnið að gagngerum endurbótum á ytra byrði kirkjunnar, gluggar færðir til upprunalegs horfs og allir veggir klæddir nýju bárujárni. Á hvorri hlið kirkjunnar eru tíu gluggar, fimm niðri og fimm uppi, einn á hvorri hlið kórs, tveir á framhlið turns yfir kirkjudyrum og fjórir á austurhlið skrúðhúss sem reist var árið 1962. Gluggarnir eru sexrúðugluggar með þverrömmum að ofan sem eru með krosssprossum að innanverðu. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og yfir þeim þvergluggi með sama hætti og yfir gluggum.
Altaristöfluna málaði Louise, drottning Kristjáns IX. árið 1891 og sýnir taflan Krist og samversku konuna við brunninn. Kirkjan á tvo kaleika úr silfurpletti og patínu með vínkönnu og oblátudósum, annar kaleikurinn er frá Kaldaðarnesi. Í kirkjunni er pípuorgel frá árinu 1995 smíðað af Björgvin Tómassyni orgelsmið. Skírnarfonturinn er skorinn út af Ríkarði Jónssyni og gefinn kirkjunni á 60 ára afmæli hennar. Í honum er silfurskál gerð að Leifi Kaldal og gefin til minningar um Þórdísi Símonardóttur ljósmóður. Þá á kirkjan gullhúðaðan silfurkaleik sem prýddur er dýrum steinum og skrauti ásamt patínu. Klukkurnar tvær í turninum eru sagðar nýlegar árið 1909 og hafa væntanlega verið settar upp þegar kirkjan var nýbyggð.
Ljósmynd: Magnús Karel Hannesson


